Hestanudd
Árborg er með meistarabréf frá félagi íslenskra nuddara síðan 1987 og hafði lengi haft áhuga á að kynna sér hestanudd til viðbótar. Í Janúar og Júní 1994 sótti hún námskeið í Stokkhólmi í Axelsson nuddskólanum. Á fyrra námskeiðinu var farið í byggingu hestsins, líkamsbeitingu og vöðvafræði stóru vöðvanna auk þess sem verkleg kennsla var í vöðvanuddi. Á seinna námskeiðinu var farið dýpra í vöðvafræðina og vandamálahross skoðuð. Einnig var kynning á punktanuddi. Punktar sem þrýst er á og eru áhrifaríkir til að nota með vöðvanuddinu. Í verklega hlutanum þar sem nuddið var æft var bætt við vöðvateygjum. Seinna fór hún svo á námskeið í CranioSacral therapy sem var mjög góð viðbót.
Hefur verið vaxandi áhugi á nuddi samhliða bættum aðbúnaði hrossa og auknum áhuga hins almenna hestamanns á bættri reiðmennsku.
Oft getur verið erfitt að finna ástæðu þess að hestur beitir sér rangt. Slæm líkamsbeiting knapa hefur örugglega áhrif á þjálfun og líkamsbeitingu hestsins sem hann þjálfar. Rétt líkamsbeiting við þjálfun er lykilatriði til að góð vöðvauppbygging geti átt sér stað. Það á jafnt við um hesta og menn. Knapi þarf að vera meðvitaður um eigin líkama svo hann geti greint á milli hvort hann sé ábyrgur fyrir t.d. misstyrk hestsins eða hvort eitthvað er að hjá hestinum. Mikilvægt í þessu samhengi er að reiðtygin séu góð. Ein algengasta orsök bakeymsla í hrossum er að hnakkurinn er ekki nógu góður og dreyfir ekki þyngd knapans rétt. Annað stórt atriði er að járningum sé sinnt. Illa járnaður eða gamaljárnaður hestur getur varla skilað góðum afköstum. Þegar hugað hefur verið að þessum atriðum samhliða almennu heilbrigði eins og fóðrun og ormahreinsun, tannröspun, að hestarnir séu ekki með þvagstein og/eða ör eftir vönun sem truflar þá er hægt að fara gera kröfur til hestins í þjálfuninni. Ef öll þessi atriði eru í lagi en hesturinn enn ósáttur á einhvern hátt má skoða hvort nudd sé eitthvað sem gæti hjálpað.
Nudd er í sjálfu sér ekki lækning en eins og einhvers staðar stendur skrifað þá er nudd ein leið til að hjálpa líkamanum að lækna sig sjálfur. Nudd eykur blóðstreymi og þannig flutning súrefnis og flýtir fyrir losun úrgangefna. Það flýtir fyrir þegar þörf er á að rjúfa vítahring sem getur myndast við óeðlilega vöðvaspennu. Hver svo sem ástæðan er fyrir vöðvaspennunni þá getur hún þýtt að hesturinn fer að beita sér rangt.
Nuddaðferðir eru mismunandi og hægt að nota nuddið eftir erfiðar æfingar, sem upphitun fyrir erfiðar æfingar, sem hluti endurhæfingar eftir meiðsl. Nudd getur tvímælalaust flýtt fyrir bata þar sem það á við. Og nudd er frábær leið til að láta sér og hestinum sínum líða betur þó ekkert sérstakt sé að.