Það styttist í stóðréttir sem verða að þessu sinni 6. Október. Alltaf tilhlökkunarefni að fá trippin heim og vonandi fáum við fullt af góðum gestum eins og undanfarin ár. Myndin er af Dalvari 4.v. Dalvar var frumtaminn í sumar og fékk því ekki fararleyfi á heiðina. Hann er nú kominn á haustbeit með folaldsmerunum á bænum en þær fara venjulega ekki á heiði.
|
Við höfum fengið margar góðar heimsóknir í sumar. M.a. þennan hóp af þýskum konum sem voru í hestaferð á Íslandi. Kærar þakkir fyrir komuna allar saman og velkomnar aftur. Svo kom Marie í viku og eins og venjulega reið hún út af krafti. Toppurinn hjá henni var að prófa Álfrúnu en annars finnst henni víðáttan og frelsið í reiðtúrunum toppurinn á tilverunni.
|
Álfrún var sýnd í kynbótadómi 7.ágúst. Hún stóð sig með stakri prýði og náði fyrstu verðlaunum. Sýnandi var Jakob Svavar Sigurðsson. Við erum auðvitað voða kát með þetta og núna er Álfrún komin heim eftir langa fjarveru. Myndirnar eru frá kynbótasýningunni.
|
Það tók sinn tíma að keyra hryssur undir stóðhesta en 2 ferðir voru farnar suður á land. Aþena fór undir Spuna frá Vesturkoti en hélt ekki og er nú hjá Álffinni frá Efri-Gegnishólum. Plata fór undir Dyn frá Dísarstöðum. Sök er hjá Hvin frá Blönduósi og Náttdröfn hjá Smára frá Skagaströnd. Myndin er af syni hennar og Kardinála. Sá heitir Mökkur.
|